SIGURLAUG GUÐNÝ
Þegar ég byrjaði að veikjast haustið 2011, hafði ég rekið Kærleikssamtökin í sjö ár og þróað meðferðarúrræði út frá þeirri sjálfsvinnu sem ég hafði notast við í gegnum jóga, heilun, hugleiðslu og bænir. Varð ég fyrir miklu áfalli er ég veiktist sem aldrei fyrr og tapaði svo heilsunni líka. Það tók mig dágóðan tíma að skilja af hverju ég þurfti að ganga í gegnum þessa tilteknu veikindalotu. Hún varð til þess að ég náði að mynda tengsl við ýmislegt sem ég hafði hingað til forðast og til að ég næði að draga úr þvingunum sem ég beitti á móti forðuninni. Þessar andstæður hafa ýtt verulega undir sveiflurnar sem ég hef gengið í gegnum í lífinu, tengt geðröskunum. Það er síður en svo auðvelt að skýra út flækjustigið hjá mér því forðun og þvingun hafa orðið til fyrir erfiðar aðstæður í barnæsku sem ýttu mjög snemma undir kvíðaröskun, þroska- og skilningsleysi sem og ímyndanir. Endurtekin áföll en engin úrvinnsla á móti gerði það að verkum að ég fór að notast við forðun og þvingun, sérstaklega til að stýra og hafa áhrif á kvíðann en líka til að lifa af og ná einhverri fótfestu í lífinu. Þannig ráfaði ég um og reyndi margt en endaði ávallt í blindgötu – þar til ég fór í þessa löngu veikindalotu og bataferli sem ég lýsi m.a. í þessum bókum. Í desember 2015 voru Kærleikssamtökin stofnuð aftur, eftir að ég hafði áttað mig á að þau höfðu þróast samhliða mínu veikinda- og bataferli.
♥ ♥ ♥
Breytingarnar sem orðið hafa á mér eru svo ótrúlegar og ná nú alveg inn í rætur margra eiginleika sem höfðu þróast í mér í gegnum mörg líf og sem höfðu byggt upp flækjustig sem leit út eins og víravirki, sem væri ekki með nokkru móti hægt að leysa úr. Ég sjálf er enn í bataferli (mars 2016) en er komin að mestu út úr veikindunum. Ástæða þess er að ekki er nóg að komast út úr geðröskunum því byggja þarf upp nýjann grunn og fótfestu. Á það við um allt ójafnvægi sem fólk glímir við, s.s. hvers kyns fíkn, afbrotaferli eða heilsubrest. Nú í vetur hef ég náð í skrefum að takast á við meira og hef bætt við mig nýjum samskiptum. Ég er enn að vinna að því að ná að vera staðfastari í þeim samskiptum sem voru fyrir, þeim sem ég hef unnið í og fjalla um í þessum bókum. Enn eru þættir sem ég þarf að fikra mig áfram með og annað sem ég hef ekki náð að tækla eins og ég vil geta gert. Það er enn ákveðinn óstöðugleiki til staðar sem þarf að komast jafnvægi á en sem er nú í dag mun minna mál að horfast í augu við - eftir að mörg flækjustigin leystust sundur og ótal margt gert óvirkt á þessum fjórum árum sem bataferli mitt hefur staðið yfir. Þá á ég sérstaklega við virk karmatengsl, við sjálfa mig, aðra einstaklinga, púka og aðrar verur tengdar myrkrinu sem og myrkrið sjálft. Einnig eiginleika, stíflur og hindranir sem hafa haldið mér niðri.
♥ ♥ ♥
Ég fjalla í þessum bókum um samskipti mín og nokkra einstaklinga, reiði mína, þrálátan kvíða, sektarkennd, skömm, þvingun, forðun og ótta í þeim. Til þess að kanna karmatengsl milli mín og þeirra hef ég notast við dáleiðslu með Kinesiology, cranio (höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun), dáleiðslu til að fara inn í fyrri líf, heilun, hugleiðslu, bænir og þessi skrif. Það sem skiptir hér höfuðmáli er að fólk átti sig á að tilgangurinn með því að fjalla ítarlega um ákveðin samskipti er til þess að skíra frá sjálfsvinnuferlinu sem slíku. Ég hef lengi tekið þátt í þessum samskiptum án þess að hafa náð að segja mitt álit, setja mörk eða ná að tjá mig um þau eða líðan mína. Geðraskanirnar, skilnings- og þroskaleysi hafa gert það að verkum. Ég vona að fólk átti sig á þörf minni til að takast svona á við þessi samskipti og um leið kennsluna sem felst í þeim í gegnum þessi skrif. Í þessu bataferli sem skrifin fjalla um hef ég markvisst unnið með samskipti í mínu nánasta umhverfi og hef unnið að því heilshugar í von um að þau breytist til hins betra, en ekki til að auka á þá árekstra sem fyrir voru. Slíkt hefur samt átt sér stað í einhverjum þeirra, mismikið, en sem er eðlilegt þegar ekki allir eru að vinna með sjálfa/-n sig. Í dag standa þessi samskipti flest að mestu ófrágengin en það er von mín að þeir sem eiga í hlut nái að vinna sína vinnu til að jafnvægi komist á.
♥ ♥ ♥
Ég vil hafa hér eitt atriði alveg skírt varðandi umfjöllun um samskipti mín við þessa einstaklinga. Því, sem hefur komið upp á yfirborðið í skrifunum, umfjöllun og úrvinnslu, hef ég ekki stýrt nema að því leyti að vera tilbúin að takast á við þessi samskipti á innri sviðum. Hefur mér verið sýnt af hverju ég eigi að skrifa og fjalla um þau í þessum bókum og líka hvort ég eigi að ræða það áður við viðkomandi einstaklinga eða ekki. Fyrst um sinn gat ég ekki hugsað mér að skrifa neitt um samskiptin nema að ræða við þá sem eiga í hlut og í raun fá samþykki þeirra. Út frá þeim skilaboðum – að svo ætti ekki að vera - skildist mér smátt og smátt af hverju. Ég róaðist við að skilja og treysti því að bæði óháðir lesendur sem og þeir sem samskiptin snúa að átti sig á þessu úrvinnsluferli og skilaboðum sem fjallað er um í bókunum. Þar sem nær öll þessi samskipti standa enn opin og ókláruð, í mars 2016, get ég eingöngu vonað og beðið þess að umfjöllun um þau skapi tækifæri til að leysa samskiptin og bæta þau til frambúðar. Ein samskipti sem ég fjalla um hafa bæði ég og viðkomandi unnið með þó ég hafi ekki náð að greina viðkomandi frá öllu sem mér hefur verið sýnt. Við erum enn að vinna með karmatengsl okkar og upplifum nauðsyn þess á ólíkan hátt. Mestu máli skiptir hér að þessi úrvinnsla okkar gefur fordæmi, sýn á slíkt úrvinnsluferli og nauðsyn þess - sem er að við öll temjum okkur að leysa úr hvers kyns árekstrum og ójafnvægi.
♥ ♥ ♥