HLUTVERK BÓKANNA

Bækur þessar nýtast hverjum þeim sem vill ná að dýpka tengsl við sjálfa/-n sig og aðra á meðvitaðan hátt. Á það jafnt við um fórnarlömb, gerendur, meðferðaraðila, aðstandendur, almenning og þá sem setja lög og reglur. Gott er að hafa í huga að þeim sem gengur vel í þessu lífi eru jafn ábyrgir fyrir að vinna með sig og vera meðvitaðir um þróun og þroska mannkynsins (sjálfs síns og heildarinnar). Öll þurfum við - með einum eða öðrum hætti - að vinna úr fortíðinni, karmatengslum, stíflum í efnislíkama, áru, líffærum og orkustöðvum. Ná þannig að losa um eiginleika og hindranir sem hafa áhrif á daglegt líf. Einnig til að ná jafnvægi á öllum sviðum lífsins. Sú sjálfsvinna sem lýst er í þessum bókum felst í að nálgast sjálfa/-n sig, horfast í augu við sjálfa/-n sig, takast á við sjálfa/-n sig, verða meðvitaðri um sjálfa/-n sig, uppræta neikvæða þætti, myrkur, gömul munstur og viðhorf sem trufla, hindra og halda okkur í ákveðnu hjólfari.  Á móti að læra, sjá og skilja hvað við þurfum að temja okkur í staðin fyrir það gamla.

 

          

 

Fórnarlömb eru að mestu föst í aðstæðum og samskiptum þar sem þeim er haldið niðri og aðrir ná að kúga, misnota og/eða beita valdi og stjórnun. Hér er bæði átt við einstaklinga sem komast ágætlega í gegnum lífið eftir áföll eða erfið samskipti en þurfa hjálparhönd til að laga það sem er brotið. Einnig er átt við þá sem hafa orðið fyrir alvarlegum og/eða langvarandi árásum, misnotkun, ofbeldi og fleiru þess háttar og sem þurfa aðstoð við að komast út úr vítahring, erfiðleikum og flækjunni sem hefur samhliða undið upp á sig. Til þess að ná aftur fótfestu getur þurft að byggja upp nýjan grunn þar sem sá gamli er í molum og sem síðan er hægt að byggja nýtt líf á.

 

          

 

Gerendur geta verið eins og aðrir föst/fastir í ferli sem gerir þeim erfitt fyrir að leita sér aðstoðar. Þá getur lestur þessara bóka nýst sem skilningur og innsýn inn í hvernig liggur í hugsunum, tilfinningum, hegðun, karma, stíflum og eiginleikum. Það getur verið grunnur að því að geta leitað sér réttrar aðstoðar. Við lestur bókanna er meiri skilningur komin á sjálfa/-n sig, að mikilvægt sé að skoða og vinna með áhrif þess sem viðkomandi hefur gert sér og öðrum, einnig að viðkomandi sé undir töluverðum áhrifum af hálfu annarra og umhverfisins. Vert er að nefna að einstaklingar sem leita sér ekki aðstoðar vegna þátta eins og veikinda, hegðunar eða annarra erfiðleika (t.d. stjórnsemi, að ljúga og dæma aðra), fara á mis við ábyrgð sína gagnvart sjálfum sér og umhverfinu því þeir teljast líka gerendur. Hugtökin fórnarlömb og gerendur eiga, eins og m.a. fjallað er um í þessum bókum, við okkur öll þegar uppi er staðið.

 

          

 

Meðferðaraðilar hvers kyns geta nýtt þessi skrif bæði fyrir sjálfa/-n sig og skjólstæðinga sína. Ávallt eru karmatengsl milli fólks sem hittist í lífinu, hvar svo sem það hittist og sem gott er að hafa í huga. Getur svona sjálfsvinna sem meðferðaraðili notast við, haft mikil og bætandi áhrif á öll samskipti við skjólstæðinga og getur haft afgerandi áhrif á þær meðferðir sem notast er við. Allt of mikið er um að meðferðaraðilar eigi erfitt með að vinna með gerendur og margfalt meiri þjónusta er til fyrir fórnarlömb. Þessu þarf að breyta ef við viljum sjá færri afbrot, ofbeldi, nauðganir og aðra misnotkun. Það að dæma eingöngu gerendur og hamla þeim aðgang að því að takast á við sjálfa/-n sig, getur í dag ekki lengur talist til eðlilegra mannréttinda og er í algjörri andstöðu við yfirlýsingar margra um baráttu við bættan heim, minnkandi neyslu og hvers kyns afbrot.

 

          

 

Aðstandendur, almenningur og þeir sem setja lög og reglur eru þeir hópar sem telja sig oftast best setta, það er, þeir telja sig hvorki vera fórnarlamb, né geranda og þar sem þeir eru ekki meðferðaraðilar þá virðist sem þeir telja að þeir beri litla eða enga ábyrgð. Að þeir geti leyft sér að dæma þá sem augljóslega eru í hinum hópunum. Afleiðingar slíkrar hegðunar er samt sem áður margvísleg og oftast til þess fallin að halda fórnarlambi og/eða geranda í þeim aðstæðum sem viðkomandi vill og er að reyna að komast út úr. Það verður ekki fyrr en hver einasti einstaklingur eykur meðvitund sína á áhrifum hugsana sinna, tilfinninga, viðhorfa og gjörða sem heimur okkar mun raunverulega fara batnandi.