BÓK 2 - GEÐRASKANIR OG SJÁLFSVINNA
Önnur og þriðja bókin eru flóknustu bækurnar þar sem svo margt þvælist og flækist saman og fyrir hvort öðru - en tengist samt. Ferlið er nær óskiljanlegt. Það er í lok þessar bókar og í fyrri hluta þriðju bókar sem ég næ botninum. Fljótlega eftir að ég byrja á þessari bók hér fór ég í margra vikna kvíðakast og ofan í það byrjuðu DAM tímarnir með verkefnavinnu á Hvítabandinu. Alveg frá áramótum og fram í maí 2013 voru stórir þættir í gangi og sem reyndu mikið á mig á þessum tíma. Þessi bók hér spannar eingöngu fjögurra mánaða tímabil en mér líður eins og á þeim tíma hafi þjappast saman nokkurra ára ferli. Ég skil sjálf ekki hvernig ég komst í gegnum þennan tíma og ná að nýta sjálfsvinnuna eins og ég gerði. Á sama tíma var bæði ég og umhverfi mitt (aðstæður og samskipti) á upp- og niðurleið. Ég sjálf upplifði að nær engin útgönguleið virtist vera til staðar en var samt að takast á við margt í fyrsta sinn og sem ég fann að gerði mjög gott. Margt sem mér hafði fundist vera að, t.d. í samskiptum, fór ég í fyrsta sinn að tala um og sá í meðferðinni á Hvítabandinu að ég hafði þá skynjað margt rétt í gegnum sjálfsvinnuna en ekki náð að gera neitt raunhæft með það.
♥ ♥ ♥
Svo margt var enn á niðurleið er ég skrifaði þessa bók heilu ári eftir að ég veiktist. Ég átti erfitt með að átta mig á raunveruleikanum, nýta það sem ég var að læra og ná að tengja á uppbyggilegan hátt við sjálfa mig, ástand og aðstæður. Var allt í umhverfinu ströggl út í eitt. Ég fann að eitthvað var að gerast inn í mér en ytra umhverfi mitt var mjög truflandi sem olli mér miklu álagi. Haustið 2012 fór ég aftur af stað í íþróttinni en lét það ekki duga því ég bætti fleiru við tengt félaginu, svo samskiptin þar ýttu mér lengra út í horn. Samt sem áður hjálpuðu þau mér líka til að geta tekist á við “lifandi” samskipti í meðferðinni á Hvítabandinu. Ég á við samskipti sem voru virk en ekki eins og mörg önnur sem byggja eingöngu á orðaskiptum þegar hist er í afmæli, út í búð eða við önnur tækifæri.
♥ ♥ ♥
Er ég skrifa þessa bók er ég enn að leita upplýsinga og reyna að skilja enn betur hvað var að mér. Ýmsar aðstæður komu upp sem ég höndlaði ekki, ég fór í gegnum langt kvíðakast fyrir utan stöðugan kvíða alla daga, meðferðin á Hvítabandinu hafði sín áhrif á mig og hópinn í heild og ég glímdi við alls konar yfirþyrmandi hugsanir og ímyndanir – þannig að mér stóð ekki á sama um hvernig ég mögulega myndi bregðast við áreitinu sem ég upplifði ef ég tapaði mér einn daginn. Ég bæði skildi varla neitt af því sem var að gerast með mig en samt var ég líka að komast svo miklu nær mér en ég hafði gert öll árin í sjálfsvinnunni hingað til. Mér fannst ég standa milli einhverja afla sem bæði toguðu í mig og ég vissi varla hvað var í gangi. Haldreipið sem ég hafði haft í gegnum árin á undan í sjálfsvinnunni þynntist verulega á þessum mánuðum og hefði ég ekki verið á Hvítabandinu þennan vetur hefði þetta ferli og ástand endað með ósköpum.
♥ ♥ ♥
Ég hef átt erfiðast með að tengjast bók tvö og þrjú. Þegar ég byrjaði að skrifa sumarið 2012 fór mikill tími í að koma einhverri mynd á aðstæður mínar, samskipti og sjálfsvinnuna í gegnum árin, síðan að skrifa um veikindin veturinn á undan og auk þess að skrifa um það sem var að gerast dags daglega. Eftir tvo mánuði gat ég loks byrjað að skrifa nær eingöngu um nútíðina en þó náði ég ekki að ljúka alveg við það sem tengdist fortíðinni. Það hékk yfir mér næstu tvö árin þar til ég náði að ljúka alveg við fyrstu og aðra bókina (sumar 2014) og mest megins af þeir þriðju. Langerfiðast átti ég með að skrifa um Kærleikssamtökin. Fyrir opnun heimasíðunnar í október 2015 las ég aftur yfir fyrstu og aðra bókina, sem tók töluvert á, ringulreið gerði vart við sig og átti ég erfitt með að tengjast því sem hafði gerst á þessum tíma og enn veldur það einhverjum doða.
♥ ♥ ♥
Fyrsta bókin er fáanleg - á prenti og í PDF, ePub og Kindle útgáfu.
Bókin á prenti kostar 4.500 kr og 2.500 kr rafræn.
Félagsmenn hjá félaginu og mánaðarlegir styrktaraðilar fá 25% afslátt af hverri bók sem keypt er. Fyrir almennan kaupanda fæst 500 kr. afsláttur á hverja bók þegar keyptar eru fleiri en ein bók í einu.
Allur ágóði bókanna rennur óskertur til Kærleikssamtakanna. Kaupa bók.
♥ ♥ ♥