BÆKURNAR

Bækur þessar byrjaði ég að skrifa í júní 2012 og var ég leidd áfram í gegnum skrifin, uppsetningu, framvindu, bókatitla og skilning á þeim. Var ég sjálf lengi vel að átta mig á og skilja hver raunveruleg ástæða þeirra var, þróunina í þeim, hver áhrif þeirri yrðu, tilgangi þeirra og tækifærunum sem þær gæfu - bæði fyrir mig og aðra. Það var ekki fyrr en í síðari bókunum sem skilningur kom fram á því af hverju ég átti að skrifa þessar bækur – svona eins og ég gerði. Efaðist ég því sjálf um ýmislegt sem kom fram, þó ég vissi innst inni að það lægi í því sannleikur sem ætti erindi við okkur öll.

 

           

 

Ástæða þessara skrifa eru geðræn veikindi sem ég hef glímt við frá barnæsku og sem gerðu það að verkum að nær ekkert gekk upp í lífi mínu. Óð ég úr einu í annað og taldi alltaf að nú væri ég komin með allt á hreint og hlutirnir myndu ganga upp. Ég áttaði mig ekki á því hvað dreif mig áfram öll þessi ár því það var ekki fyrr en ég var orðin rúmlega fertug að ég veiktist svo alvarlega að ég gat ekki haldið áfram eins og áður. Nú dugði ekki mín samsetning af sjálfsvinnu til að vinna mig út úr þunglyndi og ekki gat ég lengur brett upp ermarnar og þannig forðast að horfast í augu við að eitthvað mikið meira væri að mér en ég hafði haldið. Leitaði ég árið 2012 því loks upplýsinga og ráðlegginga um hvað gæti verið að mér og við tók ferli, bæði til að komast að réttri niðurstöðu og svo réttri leið fyrir mig til að vinna mig út úr þessu ástandi – og sem var ekkert svo auðvelt. Það var mun auðveldara að lesa um geðraskanir og merkja við allt sem ég fann að átti við mig en svo var annað að fá rétta greiningu og átta mig á hvað hver geðröskun þýddi, áhrifum þeirra og flækjustigin sem urðu til er þeim sló saman.

 

          

 

Þróun þessara bóka hefur verið ævintýri líkast. Aldrei hefði mig geta grunað hversu langt ég myndi ná í sjálfsvinnu eftir að ég lærði heilun árin 2000-02. Ekki hefði mig heldur grunað hversu veik ég ætti eftir að verða, né allt það sem hefur nú komið upp á yfirborðið hjá mér og öðrum í kringum mig. Þó ég hafði lengi verið föst í ímyndunum og óraunveruleika þá hefði ég aldrei geta ímyndað mér það sem ég hef séð, lært og skilið á síðustu fjórum árum í gegnum þessa einbeittu sjálfsvinnu sem ég fjalla um í bókunum. Hreint út sagt ótrúleg karmatengsl þar sem kúgun, misnotkun, ofbeldi, vændi, ríkidæmi, fátækt, afskiptaleysi, vanræksla, stjórnsemi, tilraunir og annað hefur viðgengist. Afleiðingar og áhrif, sem hafa valdið þvílíkum flækjustigum hjá mér, hafa komið fram, þroska- og skilningsleysi sem hefur þróast í mörgum lífum, uppgjöf og tilgangsleysi sem hefur litað mig mjög lengi sem og forðun og þvingun sem ég hef beitt til að lifa af og til að geta tekist á við aðstæður, samskipti og sjálfa mig með einhverjum hætti. Úrvinnsluferlið er enn í dag að dýpka og veit ég að enn er á ýmsu að taka til að ná að uppræta og gera upp ákveðna þætti svo þeir losni alveg úr mér og frá mér. Með þann skilning sem ég hef í dag á slíku ferli tek ég glöð fleiri skref í átt að sjálfri mér og karmatengslum því uppskeran er svo þess virði.

 

          

 

Áhrif þessara bóka eru margvísleg og geta þær komið öllum að notum, sama í hvaða hlutverki eða stöðu hvert okkar er í. Þó það hljómi ótrúlega þá er það samt satt. Þetta sjálfsvinnuform sem hefur þróast í gegnum mig frá árinu 2000 hefur komið bæði mér og öðrum að miklu gagni. Áberandi hefur verið hvað ég hef átt auðveldara með að vinna með einstaklingum með mikla erfiðleika, en í dag skil ég betur af hverju og er það út af mínum eigin erfiðleikum og flækjustigum. Ég skil þá sem glíma við mikil og flókin vandamál mun betur en þá sem fljóta áfram og þarfnast eingöngu minniháttar úrvinnslu. Annað er, að þeir einstaklingar sem ákváðu að þiggja heilun, samtöl og/eða verkefnin sem mótuðust í gegnum mína sjálfsvinnu, hafa nær allir tjáð mér að áhrifin af þeirri vinnu hafi verið góð, mikil og jafnvel mjög mikil á líf sitt, líðan og aðstæður. Þá er vert að nefna að þeir einstaklingar hafa einungis notast við brot af því sem ég sjálf hef gert í minni sjálfsvinnu svo þeir geta séð með þessum skrifum, að hægt er að margfalda og dýpka hjá sér úrvinnsluna ef þeir vilja.

 

          

 

Tilgangur þessara bóka tengist fyrst og fremst þeim tímamótum sem við erum stödd á. Þessi skrif geta kallast sjálfshjálparbækur, en eins og þeir sem lesa þær munu sjá, þá er tilgangurinn mun meiri en eingöngu að hægt sé að vinna með sjálfan sig. Þessi skrif fara inn á kerfin sem við erum bundin við, s.s. mennta-, heilbrigðis-, fangelsismála-, o.fl. kerfi sem eru orðin úr sér gengin og þarfnast verulegra úrbóta. Einnig er fjallað um fórnarlömb og gerendur, karmtantengsl og nauðsyn á úrvinnslu, myrkraheimana, verur þaðan og hvernig þær sitja í og um okkur, blekkja og misnota, hvernig það leysist úr stíflum í líkama, brengluðum viðhorfum og veikindum með því að skoða fyrri líf, nauðsyn og áhrif fyrirgefningar, tengsl við meistara og andlegar verur og vígslur. Tilgangur þessara skrifa er margvíslegur eins og áhrifin, því þau vekja athygli og varpa ljósi á, leiðbeina og aðstoða hvern þann sem vill losna við og út úr gömlum vana, viðhorfum og hegðun sem halda okkur öllum niðri. Þau hjálpa okkur að sjá og skilja af hverju og hvernig þarf að móta ný viðhorf sem snúa að raunverulegum og heilbrigðum þroska og þróun mannkynsins og svo er sjálfsvinnuferlinu lýst ítarlega. Þessi skrif halda því utan um einstaklinginn sem slíkan en líka heildina sem við öll erum bundin við. Hugtakið tímamót snertir efnislega séð (ytri svið) breyttar áherslur, viðhorf, úr sér gengin kerfi, valdabaráttu og annað sem fólk er að brjótast úr út – en andlega séð (innri svið) snertir það þá nauðsyn að við öll öðlumst meiri skilning á þróuninni sem er í gangi (myrkrinu/ljósinu), meðvitund á okkur sem mannveru og náum að bera mun meiri ábyrgð á okkar eigin hegðun og sem hefur áhrif á og fyrir heildina.

 

          

 

Tækifærin sem þessar bækur bjóða felast í sjálfsvinnuferli sem á sér stað þegar hugað er heildrænt að öllum þáttum. Í bókunum fjalla ég að mestu um efnislega og andlega þætti, karmatengsl, tengsl við sjálfa mig og aðra í þessu og fyrri lífum, ójafnvægi á orku, stíflum í líkama, áru, líffærum og orkustöðvum, hugsanir, tilfinningar, hegðun, myrkrið, ljósið, eiginleika og sitt hvorn endan á þeim, jafnvægi, ójafnvægi og hlutleysið. Ég nálgast þessa þætti út frá eins mörgum hliðum og ég hef þurft að takast á við. Öllum þeim flækjum, hindrunum, tækifærum, uppgjörum, skilningsleysi og skilningi, lærdómi og mörgum vangaveltum um hvað sé raunverulegt og hvað ímyndanir. Þessi veikindi mín hafa gefið mér svo ótrúleg tækifæri – en – það gerðist ekki fyrr en ég skildi að það lægju tækifæri í öllu þessu ójafnvægi sem ég hef þekkt svo lengi og hefur valdið mér svo miklum erfiðleikum á öllum sviðum í mörgum lífum. Þó ég hafði verið í bullandi sjálfsvinnu samfleytt í tólf ár er ég fór inn í það dýpsta þunglyndi sem ég hef upplifað (2012-2014), þá hef ég heldur aldrei upplifað annað eins bataferli eins og hefur átt sér stað í gegnum þessi skrif og þær aðferðir sem ég notaðist við og upplýsingarnar sem mér voru gefnar.

 

          

 

 

Bærkur 1-7